Lífið

Popp, rokk og sveitt partí

Nóra á Nasa Föstudagskvöldið var hápunktur Rétta. Fréttablaðið/Valli
Nóra á Nasa Föstudagskvöldið var hápunktur Rétta. Fréttablaðið/Valli

Tónlistarhátíðin Réttir náði hámarki sínu um helgina. Trausti Júlíusson fylgdist áhugasamur með.

Nóra hóf dagskrána á Nasa á föstudagskvöldið. Það heyrðist að þarna var ný sveit á ferð, en þrátt fyrir smá hik og óöryggi komust þau í bandinu ágætlega frá sínu. Efnileg poppsveit sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni. Strákarnir í Sing for Me Sandra voru þéttir og fullir af orku, en mættu vera aðeins djarfari í lagasmíðunum.

Á Sódómu skilaði hljómsveitin Miri frábæru setti. Þeir í sveitinni hafa þróað tónleikaformið í allsherjar gleðimessu með tilþrifamikilli spilamennsku og kjarnyrtum kynningum á milli laga.

Partívígvöllur á NasaÁ eftir þeim tók Skakkamanage við og hreinlega fór á kostum. Næst var röðin komin að Kimono. Alltaf jafn gaman að fylgjast með gítartilþrifum þeirra Alex og Gylfa og Kjartan er hörku trommuleikari. Kimono er einstök sveit og maður bíður spenntur eftir nýju plötunni. Eftir rokkkeyrsluna á Sódómu lá leiðin aftur á Nasa þar sem Retro Stefson var að klára sitt sett. Á meðan tvö síðustu lögin voru spiluð voru meðlimir FM Belfast að stilla upp á sviðinu og án þess að missa úr takt breyttist Senseni yfir í Lotus og FM Belfast tók við. Mjög flott skipting. Nasa var troðfullt og allsherjar partístemning í gangi. Partívígvöllur. Kvöldið endaði svo með dönsku sveitinni Bode­brixen á Batteríinu. Sjö manns í sérhönnuðum röndóttum búningum með neonljós og uppblásnar blöðrur. Litu svolítið út eins og hressir dótakallar. Og tónlistin lauflétt dönsk rafpoppsveifla. Frábær endurkoma ApparatsLaugardagskvöldið hófst á bestu nýju sveitinni sem ég sá á Réttum, Nolo. Þetta var Gogoyoko kvöld og alveg við hæfi að Nolo spiluðu þar enda fyrstu Gogoyoko-stjörnurnar. Fínar lagasmíðar hjá þeim og Þeir hafa alveg sitt sánd. Og flottar söngraddir. Á Grand rokk var Rökkurró að spila sitt ljúfa popp og gerði ágætlega. Fullt af nýjum lögum. Síðan tók einherjinn Ljósvaki við. Bæði efnilegur og forvitnilegur ef við tökum mið af tveimur fyrstu lögunum sem hann spilaði. Hápunktur kvöldsins var svo auðvitað endurkoma Orgel­kvartettsins Apparat á Nasa. Apparatið er frábær hljómsveit og alveg kjörin til þess að trylla múginn. Apparatið stóð undir væntingum þó að það hefði verið gaman að fá að heyra Stereo Rock & Roll líka. Og enn var troðfullt á Nasa. Undarleg tímasetning

Á heildina litið má segja að þessar fyrstu Réttir hafi tekist vel. Það var fullt af flottri tónlist í boði, framkvæmdin tókst yfir það heila mjög vel og flestir tónleikastaðanna voru fullir þegar það leið á kvöldin. Hápunkturinn fyrir mig var föstudagskvöldið. Það var fullkomið.

Samt er nokkrum spurningum ósvarað varðandi Réttirnar. Heldur einhver í alvöru að það sé eitthvert vit í því að hafa tvær tónlistarhátíðir með yfir hundrað hljómsveitum með þriggja vikna millibili í Reykjavík? Og er það endilega góð hugmynd að hafa maraþontónlistarveislu einmitt á þessum fáu dögum sem það er hægt að sjá almennilegar kvikmyndir í borginni? Það er að sönnu aldrei of mikið af tónlist, en er þessi tímasetning ekki eitthvað undarleg?






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.