Innlent

Starfslokasamningar og kaupaukar takmarkaðir

Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Heimildir fjármálafyrirtækja til að gera starfslokasamninga og svokallaða kaupaukasamninga við starfsmenn og stjórnendur sína verða takmarkaðar, nái frumvarp um breytingar á lögum um starfsemi fjármálafyrirtækja fram að ganga. Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, kynnti frumvarpið á ríkisstjórnarfundi í morgun. Frumvarpið felur í sér hertar reglur um starfsemi fjármálafyrirtækja.

Samkvæmt heimildum fréttastofu úr efnahags- og viðskiptaráðuneytinu mun Fjármálaeftirlitið fá auknar heimildir. Meðal annars er lagt til að stofnunin fái heimildir til að að takamarka starfsemi einstakra starfsstöðva fjármálafyrirtækja, til þess að kveða á um það hvað teljast eðlilegir viðskiptahættir og auknar heimildir til þess að setja fjármálafyrirtækjum tiltekna tímafresti til þess að afsetja eignir sem þau hafa leyst til sín.

Auknar hæfiskröfur verða gerðar til stjórnarmanna og lykilstarfsmanna fjármálafyrirtækja. Heimildir til kaupaukakerfis verða takmarkaðar og settar í ákveðinn farveg. Lagt verður til að starfslokasamningar megi aðeins standa í takmarkaðan tíma. Óheimilt verður að gera starfslokasamning við framkvæmdastjóra nema hagnaður hafi verið af rekstri viðkomandi fyrirtækis undanfarin þrjú ár. Þá verður forstöðumönnum innri endurskoðunardeilda fjármálafyrirtækja gert að uppfylla ákveðin hæfisskilyrði.

Til stendur að leggja frumvarpið fram á Alþingi áður en að þingmenn fara í jólaleyfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×