Innlent

Konur áberandi hjá VG í Reykjavík

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir og Álfheiður Ingadóttir bjóða sig fram í Reykjavík ásamt Svandísi Svavarsdóttur og Kolbrúnu Halldórsdóttur.
Katrín Jakobsdóttir og Álfheiður Ingadóttir bjóða sig fram í Reykjavík ásamt Svandísi Svavarsdóttur og Kolbrúnu Halldórsdóttur.
Útlit er fyrir að það verði spennandi barátta um efstu sæti á listum Vinstri grænna í Reykjavík fyrir komandi alþingiskosningar. Forval verður haldið 7. mars næstkomandi. Fjórar konur gefa kost á sér í efstu sæti listanna tveggja og má búast við því að konur verði hvergi eins áberandi og einmitt þar.

Fyrst ber að nefna Katrínu Jakobsdóttur, varaformann flokksins og menntamálaráðherra, sem tilkynnti um þátttöku í forvalinu í morgun. Katrín sækist eftir að leiða lista flokksins í öðruhvoru Reykjavíkurkjördæminu. Svandís Svavarsdóttir, sem hefur vakið mikla athygli sem borgarfulltrúi á kjörtímabilinu, sækist jafnframt eftir 1. sæti í öðruhvoru Reykjavíkurkjördæminu. Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna, hefur jafnframt lýst því yfir að hún sækist eftir endurkjöri. Álfheiður sækist eftir 1.- 2. sæti í prófkjörinu. Loks ber að nefna Kolbrúnu Halldórsdóttur umhverfisráðherra, sem hefur mesta þingreynslu fyrrnefndra kvenna. Kolbrún sagði í samtali við fréttastofu í morgun að hún hygðist gefa kost á sér og myndi sækjast eftir að leiða lista í Reykjavík.

„Ég gef áfram kost á mér til þess að leiða lista. Ég lít svo á að ég hljóti að flokkast sem einn af ráðherrakandídötum flokksins verandi í þeirri stöðu sem ég er í núna," segir Kolbrún. Hún sé fús til þess að gegna þessum skyldustörfum áfram fyrir sinn flokk.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×