Lífið

Litli DV-maðurinn kærir

kærir birtíng Jón Bjarki krefst þess að fá vangoldin laun frá útgáfufélaginu.
Fréttablaðið/anton brink
kærir birtíng Jón Bjarki krefst þess að fá vangoldin laun frá útgáfufélaginu. Fréttablaðið/anton brink

Jón Bjarki Magnússon, þekktur sem litli DV-maðurinn, hefur stefnt útgáfufélaginu Birtíngi vegna vangoldinna launa.

„Þetta eru laun. Semsagt sumarleyfi sem ég átti inni og einhver hálfur mánuður,“ segir Jón Bjarki sem starfaði sem blaðamaður á DV, þangað til hann lenti í deilum við Reyni Traustason ritstjóra blaðsins og hætti snögglega á blaðinu. Hann birti í kjölfarið segulbandsupptöku í Kastljósi, eins og frægt er orðið, en þar mátti heyra samtal hans og Reynis sem Jón Bjarki tók upp að ritstjóranum forspurðum.

Birtíngur er einnig með skaðabótamál í gangi gegn Jóni Bjarka, vegna meints tjóns sem fyrirtækið á að hafa orðið fyrir þegar hann hvarf fyrirvaralaust frá vinnu. Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður Birtíngs, segir útgáfufélagið vera með hærri kröfu á Jón Bjarka.

„Það er ekki þannig að Birtíngur hafni því að greiða kröfuna hans, að vísu er hún ekki samþykkt að öllu leiti. Heldur krefjumst við lækkunar á hans kröfu, en til skuldajafnaðar er krafist hærri greiðslu. Þannig að það er verið að krefja Jón Bjarka um mismuninn,“ segir Gunnar.

Jón Bjarki nemur heimspeki og ritlist við Háskóla Íslands í dag og er vongóður um að málin endi vel. „Ég vona að það. Ég veit það náttúrulega ekki. Það væri gott,“ segir hann. - afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.