Innlent

Ráðhúspallar fullir af foreldrum

Það er talsvert af foreldrum á pöllum ráðhússins.
Það er talsvert af foreldrum á pöllum ráðhússins.

„Það er fullt á pöllunum þannig við erum sátt," segir Kristín Bjarnadóttir, móðir og meðlimur í samráðshópi foreldra sem standa nú fyrir þöglum mótmælum á áhorfendapöllum borgarstjórnarinnar í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Borgarstjórn ræðir nú frumvarp að fjárhagsáætlun borgarinnar en þar kemur fram að borgin muni skila 2,6 milljarða tapi í ár. Frumvarpið byggir á að skattar og þjónustugjöld verði óbreytt. Að sögn Kristínar er áætlað að skera niður hjá leikskólum í Reykjavík um 580 milljónir króna. Þar af verður sparað um 220 milljónir inn á leikskólunum sjálfum.

„Eftir að hafa reiknað þetta út þá er kostnaður á barn sá sami og fæðiskostnaðurinn sem þeir ætla að skera niður," segir Kristín sem hefur illan grun um að þessi niðurskurður gæti bitnað harkalega á foreldrum, ef ekki þeim, þá þarf að segja upp starfsfólki, að mati Kristínar.

Aðspurð hvernig stemmning sé á pöllunum svarar hún því að það sé hugur í fólki en nokkuð rót. Margir eru að koma úr vinnu og fylgjast með. Svo má einnig finna leikskólakennara á pöllunum að sögn Kristínar.

Meðal mótmælanda er einn sem heldur á mótmælandaskilti, á því stendur: Setjum börnin í fyrsta sæti.

Kristín segir mótmælin mjög friðsöm, „enda foreldrar friðsamt fólk," bætir hún við að lokum.

Vilji fólk kynna sér málstaðinn betur má lesa um hann á netsíðunni borninokkar.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×