Innlent

Meint kókaínpar látið laust

Karlmaður á fimmtugsaldri og kona á þrítugsaldri, sem voru handtekin í síðustu viku vegna gruns um innflutning á fíkniefnum, og í kjölfarið úrskurðuð í gæsluvarðhald, eru laus úr haldi.

Karlmaðurinn sem heitir Geir Ericsson var handtekinn ásamt rúmlega tvítugri kærustu sinni á heimili þeirra í Grafarvogi á fimmtudaginn í síðustu viku. Við húsleit fundust um hálft kíló af kókaíni og 300 grömm af amfetamíni.

Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að lögreglan hafi um nokkurt skeið grunað Geir um að vera viðriðinn fíkniefnaviðskipti en sá grunur virðist hafa verið á rökum reistur, því í skýrslutökum hefur Geir viðurkennt vörslu efnanna. Hann heldur því hins vegar fram að hann sé eingöngu að geyma efnin fyrir annan mann sem hann hefur enn ekki gefið upp hver er, eftir því sem fréttastofa kemst næst.

Lögreglu grunar hinsvegar að Geir sjálfur standi á bakvið innflutninginn, en hún hefur farið í fjölda húsleita og handtekið nokkra í tengslum við málið.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Geir er viðriðinn mál af þessu tagi en árið 2001 var hann dæmdur fyrir vörslu á þýfi og peningum sem fengst upp úr fíkniefnasölu í Stóra fíkniefnamálinu svokallaða. Hann var síðan aftur dæmdur nokkrum árum síðar fyrir vörslu á sterum en aldrei fyrir stórfellt fíkniefnabrot.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu miðar rannsókn málsins vel og því þótti ekki ástæða til að krefjast áframhaldandi gæsluvarðhalds.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×