Fjórða sólóplata Fabúlu, Margrétar Kristínar Sigurðardóttur, kemur út á föstudaginn. Platan heitir In Your Skin og inniheldur tólf lög sem eru flest sungin á ensku.
Tvö lög eru sungin á íslensku og eru þau bæði tileinkuð foreldrum hennar. „Þau áttu gullbrúðkaupsafmæli í fyrra. Ég bjó til lög við ljóð sem ég hafði samið til þeirra áður,“ segir Margrét.
Hún hóf vinnu við plötuna síðasta vetur og segir hana poppaðari en þá síðustu sem hún gaf út, hina lágstemmdu og draumkenndu Dusk. Á In Your Skin má finna naktar og fíngerðar framsetningar í bland við stórar hljóðmyndir og kraftmikla kafla. Stíll Fabúlu einkennist af tregablandinni leikgleði og óvæntum uppákomum eins og kemur berlega í ljós á plötunni.
Hún ætlar að fylgja gripnum eftir með útgáfutónleikum í Þjóðmenningarhúsinu á föstudaginn. Einnig fer hún í tónleikaferð um landið eftir áramót.
„Ég hef ekki áður farið hringinn með tónlistina mína. Ég hef bara skotist stutta túra og á fáa staði þannig að ég á það eftir. Ég hlakka til að gera það,“ segir Margrét. Einnig hyggur hún á spilamennsku á Norðurlöndunum með vorinu og verður það í fyrsta sinn sem hún fer þangað í tónleikaferð.
Hægt verður að fylgjast með Fabúlu á nýrri vefsíðu, Fabula.is, sem verður opnuð á föstudaginn. - fb
Lög handa mömmu og pabba
