Innlent

Innstæður enn að fullu tryggðar þrátt fyrir nýtt frumvarp

MYND/365

Viðskiptaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Þar er gert ráð fyrir því að hámark innlána í íslenskum bönkum sem tryggt er nemi 50 þúsund evrum eða rúmum níu milljónum króna á núverandi gengi, en til þessa hefur tryggingin numið 20.887 evrum.

Markmið laganna er að veita eigendum innstæðna í innlánsstofnunum og viðskiptavinum fyrirtækja í verðbréfaþjónustu lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis. Í frumvarpinu er miðað við að lögin taki gildi 1. janúar á næsta ári. Yfirlýsingar forsætisráðherra og fleiri ráðherra um að allar innstæður í íslenskum bönkum séu að fullu tryggðar eru þó enn í fullu gildi og verða það áfram þó frumvarpið verði að lögum.

Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra segir að yfirlýsing núverandi ríkisstjórnar um að allar innstæður verði tryggðar að fullu sé enn í gildi og verði það áfram. Geir Haarde þáverandi forsætisráðherra lýsti þessu fyrst yfir í miðju hruni og síðan hefur hún verið ítrekuð af síðari ríkisstjórnum. „Þær yfirlýsingar standa á meðan annað kemur ekki fram og það eru engin tímamörk í því sambandi," segir Hrannar.

Hann segir að í frumvarpinu sé aðeins verið að hækka trygginguna eins og hún kemur fyrir í lögunum um tryggingasjóðinn. „Það haggar samt ekkert yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að tryggja allar innstæður. Það þarf sérstaka yfirlýsingu til þess," segir Hrannar.

Frumvarpið má kynna sér hér.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×