Innlent

Atvinnurekendur svíkja út bæturnar

Aðalsteinn Árni Baldursson
Aðalsteinn Árni Baldursson

Fyrirtæki og einstaklingar misnota atvinnuleysisbætur vegna hlutastarfs í auknum mæli og nýta þær sem launagreiðslur, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Fyrirtæki hafi lækkað starfshlutfall starfsmanna um allt að helming en ætlast til sömu afkasta eftir sem áður. Þannig hafi atvinnuleysisbæturnar í reynd breyst í niðurgreiðslu launakostnaðar. Í einhverjum tilfellum vinni starfsfólkið þó að eigin frumkvæði fullt starf á skertum launum.

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir þetta skýrt lögbrot sem launþegarnir séu þátttakendur í. „Þeir eru einfaldlega að svíkja út bætur. Það gæti vel komið til þess að fólk verði endurkrafið um bæturnar ef slíkt kemst upp."

Breyting á starfshlutfalli geti ekki verið einhliða ákvörðun vinnuveitanda. Samþykki starfsmaður ekki skerðingu skuli atvinnurekandi segja honum upp með eðlilegum uppsagnarfresti.

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar - stéttarfélags, segir fyrirtæki hafa leitað til sín, sem telji sig í rétti að fara þessa leið. Hann hafi bent þeim á að þetta sé ólöglegt. Að auki veit Aðalsteinn til þess að lögin hafi verið misnotuð á annan hátt.

„Ég þekki nokkur dæmi þess að fyrirtæki segi fólki upp störfum og sendi það strax af stað til að sækja um bætur vegna skertrar atvinnu. Það er klárt lögbrot, enda ber fyrirtækjum að greiða starfsmönnum uppsagnarfrest samkvæmt kjarasamningi," segir Aðalsteinn.

„Vinnumálastofnun og stéttarfélögin eiga að sækja hart að þessum atvinnurekendum. Láti þeir ekki segjast á að kæra þá. Ábyrgð fylgir rekstri. Þeir verða að axla sína ábyrgð," segir Aðalsteinn. Launafólk eigi undir högg að sækja. „Það er sótt að fólki að taka á sig alls konar skerðingar. Það er búið að taka heila öld að byggja upp réttindakerfi fyrir verkafólk. Við erum komin áratugi aftur í tímann í þeirri réttindabaráttu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×