Innlent

Innganga Íslands í ESB hefði ekki áhrif í Noregi

Åslaug Haga
MYND/Dagsavisen
Åslaug Haga MYND/Dagsavisen

Talsmaður norska Miðflokksins í utanríkismálum hefur ekki trú á því að það hefði mikil áhrif í Noregi, ef Ísland yrði meðlimur í Evrópusambandinu. Þriggja manna sendinefnd flokksins fundaði með forsætisráðherra í dag um stöðuna í íslenskum stjórnmálum.

Miðflokkurinn, eða Sentalpartiet eins og flokkurinn heitir á norsku, er eins konar Framsóknarflokkur þeirra Norðmanna. Flokkurinn myndar ríkisstjórn með Sósíaldemókrötum og er algerlega andvígur inngöngu Noregs í Evrópusambandið. Þriggja manna sendinefnd flokksins er stödd hér á landi og fundaði með Geir H. Haarde forsætisráðherra í morgun.

Åslaug Haga, talsmaður Miðflokksins í utanríkismálum, segir að með heimsókn sinni til landsins sé flokkurinn ekki að tala gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Sendinefndin sé að fræðast um stjórnmál og aðstæður hér á landi, þar á meðal spurningna um aðild. Það sé þó íslenska þjóðin sem taki endanlega ákvörðun um hugsanlega aðild.

Margir hafa fullyrt að ef Íslendingar gengju í Evrópusambandið myndaðist þrýstingur í Noregi til að gera slíkt og hið sama. Åslaug tekur ekki undir það og telur að aðild Íslands myndi ekki hafa bein áhrif á afstöðuna í Noregi. Hugsanleg aðild myndi þó að sjálfsögðu leiða til meiri umræðu.

Åslaug minnir á að norska þjóðin hafi í tvígang, 1972 og 1994, hafnað aðild að Evrópusambandinu þótt öll stjórnmálaelíta landsins hafi mælt með aðild. Innganga Svía og Finna hafi ekki breytt almenningsálitinu.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×