Lífið

Stórfyrirtæki slást um Sportacus

 Magnús Scheving er í viðræðum við bæði Sony Pictures og Warner Bros. um framleiðslu á mynd byggðri á Latabæ.
Magnús Scheving er í viðræðum við bæði Sony Pictures og Warner Bros. um framleiðslu á mynd byggðri á Latabæ. Frétttablaðið/GVA

Warner Bros. og Sony, eru meðal þeirra framleiðslufyrirtækja sem Magnús Scheving hefur rætt við um gerð kvikmyndar byggðri á Latabæ. Þetta hefur breska blaðið Daily Telegraph eftir Magnúsi Scheving í frétt sem birtist á laugardaginn. Jafnframt er greint frá því að myndin hafi þegar hlotið nafnið Sportacus sem er enska heitið yfir Íþróttaálfinn.

Magnús segir við blaðið að áætlaður kostnaður sé 25 milljónir dollara eða þrír milljarðar íslenskra króna.

Telegraph segir jafnframt frá því að Magnús ætli sér ekki að leggja árar í bát þrátt fyrir efnahagshrunið heimafyrir. Hann sé nú á ferðalagi um heiminn við að leita að nýjum fjárfestum til að leggja fyrirtækinu lið. Í fréttinni kemur fram að meðal þeirra fyrstu sem lögðu fé í Latabæjarundrið hafi verið Jón Ásgeir Jóhannesson sem hafi tapað ansi miklu þegar íslensku bankarnir hrundu.

Telegraph hefur síðan eftir Magnúsi að hann sé að útfæra þá hugmynd að opna Latabæjar-veitingastaði í London, New York og Tókýo.

Það sé stór markaður fyrir slíka staði sem bjóði upp á holla fæðu og skemmtilegt umhverfi fyrir börn. Að sögn Telegraph er ráðgert að hver veitingastaður kosti ekki undir 3,5 milljónum dollara eða 435 milljónum íslenskra króna. - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.