Innlent

Frjálslyndir funduðu í framsóknarvígi

Jón Magnússon.
Jón Magnússon.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, og þingflokksformaðurinn Jón Magnússon funduðu með ríflega sjötíu Íslendingum á Klöru­bar á Kanaríeyjum á laugardag. Barinn hefur hingað til verið þekktur sem mikið vígi framsóknarmanna og þeir reglulega haldið þar fundi.

Jón hefur verið í vikufríi á Kanaríeyjum og kemur heim í dag. Guðjón verður eitthvað lengur. „Það eru fundir hér á laugardögum klukkan ellefu og framsóknarmenn á svæðinu bara buðu okkur afnot af fundinum," segir Jón.

Jón segir fundinn hafa verið fjörugan og skemmtilegan. „Við vorum að ræða bara almennt um pólitík heima og svara fyrirspurnum," segir hann. Fundurinn hafi staðið frá ellefu til eitt í glampasólskini og menn hafi skipst ákveðið á skoðunum.

Jón segir að framsóknarmenn hafi ekki verið í áberandi meirihluta á fundinum, en þó hafi fyrirhugaðar forystukosningar í flokknum borið talsvert á góma. Þá segir Jón nokkra framsóknarmenn hafa óskað þess að Framsóknarflokkurinn tæki upp fiskveiðistefnu Frjálslynda flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×