Innlent

Ríkið fær einn á móti sex

Jón Sigurðsson
Jón Sigurðsson

Jón Sigurðsson, fyrrverandi stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, hefur verið tilnefndur í stjórnarformannssæti Íslandsbanka, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Á meðal annarra stjórnarmanna eru Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, og þrír erlendir bankasérfræðingar. Ekki er vitað um val á öðrum stjórnarmönnum.

Í núverandi stjórn Íslandsbanka eru fimm sæti og verður þeim fjölgað um tvö þegar ný stjórn tekur við bankanum. Kröfuhafar, sem samþykktu í september að eignast 95 prósenta hlut í bankanum, fá sex stjórnarsæti en ríkið tilnefnir einn í krafti fimm prósenta hlutar. Ekkert er vitað um val ríkisins.

Ekki náðist í Jón Sigurðsson þegar eftir því var leitað í gær.

Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, vildi hvorki segja af né á um stjórnarskipanina en bætti við að hæfra stjórnarmanna væri leitað víða, jafnt hér sem erlendis. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um málið en eignarhaldsfélag sem fer með 95 prósenta hlut í bankanum mun ráða í stjórnina.

Búið er að stofna eignarhaldsfélagið en beðið er staðfestingar Fjármálaeftirlitsins, að sögn Árna. Sama máli gegnir um yfirtöku kröfuhafa á bankanum. Hann gat ekki sagt til um hvenær það verði en taldi þess ekki langt að bíða.- jab








Fleiri fréttir

Sjá meira


×