Innlent

Rannsókn á Daníelsslippsmáli lokið - niðurstöður óbreyttar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Mennirnir voru á þessum bíl kvöldið örlagaríka.
Mennirnir voru á þessum bíl kvöldið örlagaríka.
Ríkissaksóknari hefur lokið athugun á erindi aðstandenda tveggja manna sem fundust látnir í Daníelsslipp við Mýrargötu í Reykjavík í mars árið 1985. Höfðu ættingjar mannanna krafist þess með bréfi til ríkissaksóknara í nóvember í fyrra að fram færi rannsókn á andláti þeirra og viðbrögðum embættis ríkislögreglustjóra eftir að aðstandendur hófu athugun sína á málavöxtum, eins og rakið hefur verið í fjölmiðlum. Ítarlega var fjallað um málið í fréttaskýringaþættinum Kompási á sínum tíma. 

Rannsókn lögreglunnar á sínum tíma beindist að því hvort mennirnir hafi fallið fyrir eigin hendi, eins og aðstæður bentu til á vettvangi, og að dánarorsök væri koloxíðeitrun frá útblæstri bifreiðar sem lík mannanna fundust í.

Ríkissaksóknari leitaði eftir því að réttarmeinafræðingur færi yfir krufningarskýrslur, ljósmyndir og önnur gögn og léti í ljós álit á dánarorsök mannanna eftir því sem unnt væri, hartnær 25 árum seinna. Að þessari athugun komu tveir réttarmeinafræðingar sem báðir hafa áralanga reynslu á sviði réttarmeinafræði. Niðurstaða úr þessari athugun er sú að um sjálfsvíg hafi verið að ræða og að mennirnir tveir hafi látist úr koloxíðeitrun sem staðfest var með blóðrannsókn. Engir áverkar sem valdið hefðu meðvitundarleysi hafi fundist við krufninguna og því benti ekkert til annars en að mennirnir hafi verið með meðvitund í bílnum þar til þeir urðu koloxíðeitrun að bráð.

Í fréttatilkynningu frá Ríkislögreglustjóra segir að það sé niðurstaða ríkissaksóknara að ekkert tilefni sé til að kveða á um rannsókn á viðbrögðum embættis ríkislögreglustjóra við málaleitan ættingja um aðgang að gögnum málsins eða á vinnubrögðum við rannsókn lögreglunnar á vettvangi og aðgerðum hennar í kjölfarið á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×