Erlent

Sjötíu ár frá stríðsbyrjun

Þar sem seinna stríðið hófst. Minningarathöfn var haldin í gær á Westerplatte-skaga við Gdansk í Póllandi.fréttablaðið/AP
Þar sem seinna stríðið hófst. Minningarathöfn var haldin í gær á Westerplatte-skaga við Gdansk í Póllandi.fréttablaðið/AP

Leiðtogar margra Evrópuríkja komu saman í Póllandi í gær á litlum skaga við Gdansk sem þýskt herskip gerði árás á fyrir réttum sjötíu árum.

Þessi árás markaði upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar.

Þau Angela Merkel Þýskalandskanslari, Vladimír Pútín, forsætis­ráðherra Rússlands, og Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, lofuðu því, ásamt öðrum leiðtogum sem mættir voru, að gleyma aldrei þeim lærdómi sem draga mætti af styrjöldinni miklu. Þrátt fyrir það gátu sumir þeirra ekki komið sér saman um aðdraganda og orsakir stríðsins.

Pólverjar vilja að Rússar viðurkenni sinn hlut í upphafi hildarleiksins, en Rússar reyndu aftur á móti að gera sem minnst úr samningi Hitlers og Stalíns. Þjóðverjar láta þó þessar deilur sem vind um eyrun þjóta og viðurkenna fúsir eigin ábyrgð.

„Þing okkar hefur fordæmt samning Molotovs og Ribben­trops,“ sagði Vladimír Pútín, forsætisráðherra Rússlands, „og við gerum rétt í því að búast við því að önnur ríki sem gerðu samninga við nasista geri slíkt hið sama.“

Utanríkisráðherrar Sovétríkjanna og Þýskalands, þeir Vjatseslav Molotov og Joachim von Ribbentrop, undirrituðu 23. ágúst 1939 samning um að hvorugt ríkið myndi ráðast á hitt. Rúmlega viku síðar réðust Þjóðverjar á Pólland, og um miðjan september réðust síðan Sovétmenn einnig inn í Pólland samkvæmt leynilegum ákvæðum samningsins.

Pútín benti á að Pólverjar hefðu á svipuðum tíma gert samning við nasista um að hvorugt landið myndi ráðast á hitt. Lech Kaczynski, forseti Póllands, sagði hins vegar út í hött að bera þann samning saman við samning Molotovs og Ribbentrops, enda hefði Pólland gert sambærilegan samning við Sovétríkin.

Angela Merkel Þýskalandskanslari sá hins vegar enga ástæðu til að efast um hlut Þýskalands og sagði að Þjóðverjar myndu aldrei gleyma orsökum og afleiðingum í sambandi við upphaf stríðsins.

„Þjóðverjar hófu seinni heimsstyrjöldina. Við færðum heiminum ómældar þjáningar,“ sagði hún.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×