Erlent

Ekki hægt að bera kennsl á mörg líkanna

Frá Afganistan í dag. Mynd/AP
Frá Afganistan í dag. Mynd/AP
Uppundir 100 manns féllu þegar orrustuþotur NATO gerðu árás á tvo olíubíla sem Talibanar höfðu rænt í Afganistan. Óljóst er hvort óbreyttir borgarar voru á meðal þeirra. Mörg líkanna voru svo illa brunnin að ekki var hægt að bera kennsl á þau.

Þegar Talibanar rændu olíubílunum drápu þeir annan bílstjórann en hinum tókst að flýja. Talibanar reyndu svo að komast undan með ránsfenginn en festu bílana í á sem þeir þurftu að fara yfir.

Þar var gerð á þá loftárás og þeir sprengdir í tætlur. Herstjórn NATO segir að fjölmargir skæruliðar hafi fallið í árásinni. Engir óbreyttir borgarar hafi verið á vettvangi.

Afganski héraðsstjórinn í viðkomandi héraði segir að 90 manns hafi fallið.

Hann nefndi ekki óbreytta borgara en lögreglumaður sem ekki vildi láta nafns síns getið sagði að fjörutíu slíkir hafi verið meðal hinna föllnu. Þeir hafi verið að reyna að ná sér í eldsneyti úr olíubílunum.

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO sagði að málið yrði rannsakað.

Margir hinna föllnu voru jarðsettir í fjöldagröf í dag. Mörg líkanna voru svo illa brunnin að ekki var hægt að bera kennsl á þau.

Framkvæmdastjóri sjúkrahúss héraðsins sagði að þar væru tólf manns til aðhlynningar vegna alvarlegra brunasára. Hann kvaðst ekki vita hvort það væru skæruliðar eða óbreyttir borgarar, en meðal þeirra er allavega einn tíu ára gamall drengur.


Tengdar fréttir

NATO gerði loftárás á stolna flutningabíla

Um 90 manns eru ýmist slasaðir eða látnir eftir að orrustuvélar á vegum NATO gerðu loftárás snemma í morgun á tvo eldsneytisflutningabíla sem stolið hafði verið í norðurhluta Afganistan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×