Innlent

Leigubílstjórar mega vera veikir

Guðjón Þ. Andrésson formaður Bifreiðastjórnarfélagsins Andvara fagnar áliti Umboðsmanns Alþingis vegn kvörtunar sem hann sendi í maí á síðasta ári. Þar fór Guðjón fram á að reglugerð um leigubifreiðar verði felld úr gildi þar sem hún standist ekki lög um leigubifreiðar. Reglugerðin kveður á um að hægt sé að svipta mann atvinnuleyfi ef hann er veikur lengur en í sjö mánuði. „Það er ekki heil brú í þessu," segir Guðjón sem hvetur Kristján Möller til þess að rýna í álitið.

„Ég er með áþreifanlegt dæmi þar sem leigubílstjóri þurfti að fara í hjartauppskurð og lét annan mann keyra fyrir sig. Síðan varð hann fyrir því óhappi að það keyrði á hann bíll og veikindin framlengdust. Hann fékk síðan ekki endurnýjun á leyfinu því hann var veikur," segir Guðjón.

Umboðsmaður beinir þeim tilmælum til Samgönguráðuneytisins í áliti sínu að umrædd ákvæði verði tekin til endurskoðunar.

Guðjón segir að samkvæmt nýjum reglum þurfi leigubílstjórar að endurnýja leyfi sitt einu sinni á ári.

„Ef það hittir þannig á að þú ert veikur og læknirinn getur ekki skrifað upp á læknisvottorð um að þú sért frískur, þá er leyfið bara tekið af þér," segir Guðjón en niðurstaðan barst honum þann 22.desember sl.

„Hann sendi bæði mér og Möller bréf," segir Guðjón sem fagnar álitinu fyrir hönd allra leigubílstjóra í landinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×