Lífið

Steinar og sturta í Hafnarfirði

Frumsmíð Björns Hlyns er nú sett upp sunnan heiða, réttu ári eftir frumsýningu á Akureyri.
Frumsmíð Björns Hlyns er nú sett upp sunnan heiða, réttu ári eftir frumsýningu á Akureyri.

Um næstu helgi tekur Vesturport aftur til sýninga Dubbeldusch eftir Björn Hlyn Haraldsson í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Leikritið var frumsýnt í samstarfi við Leikfélag Akureyrar og gekk fyrir fullu húsi norðan heiða í fyrra. Björn Hlynur er höfundur og leikstjóri verksins og Hilmar Jónsson leikur aðalhlutverkið en hann hefur ekki leikið að ráði á sviði síðan blómlegur leikstjórnarferill hans hófst.

Þeir Björn og Hilmar hafa nýlokið samstarfi við Sumarljós í Þjóðleikhúsi en þar fékk Björn mikið hrós fyrir frammistöðu sína. Aðrir leikendur í verkinu eru Harpa Arnardóttir, Davíð Guðbrandsson, María Heba Þorkelsdóttir, Kristjana Skúladóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson.

Í Dubbeldusch segir af fjölskyldu: Í kvöld kemur einkasonurinn í sumarbústað fjölskyldunnar og kynnir nýja unnustu fyrir foreldrum sínum. Smátt og smátt rennur upp fyrir föðurnum að með komu stúlkunnar knýr fortíðin dyra, þrjátíu ára gamalt leyndarmál sem hann hefur reynt að gleyma. Þá stóð hann frammi fyrir erfiðu vali og enn þann dag í dag veit hann ekki hvort hann valdi rétt.

Síðar í mánuðinum eru fyrirhugaðar tvær sýningar á Steinar úr djúpinu í Hafnarfirði í sviðsetningu Rúnars Guðbrandssonar, þann 18. og 25. janúar. Báðar þessar sýningar hlutu á sínum tíma mikið lof og er upptaka þeirra því hvalreki á fjörur leikhúsunnenda.- pbb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.