Lífið

Tökur á Kóngavegi 7 að hefjast

framleiðendur Árni Filippusson, Davíð Óskar Ólafsson og Hreinn Beck  framleiða Kóngaveg 7.
framleiðendur Árni Filippusson, Davíð Óskar Ólafsson og Hreinn Beck framleiða Kóngaveg 7.

Undirbúningur er í fullum gangi fyrir kvikmyndina Kóngaveg 7 í leikstjórn Valdísar Óskarsdóttur. Framleiðendur eru þeir Árni Filippusson, Hreinn Beck og Davíð Óskar Ólafsson, sonur Valdísar. Þeir framleiddu einnig Sveitabrúðkaup sem var frumraun hennar sem leikstjóri. Sú mynd hlaut fjórar tilnefningar til Eddu-verðlaunanna á síðasta ári, meðal annars fyrir bestu mynd og bestu klippingu.

„Við erum spenntir fyrir því að vinna aftur með Valdísi eftir ánægjulegt samstarf við gerð Sveitabrúðkaups," segir Árni.

„Við erum búnir að vera að undirbúa þetta í tæpa tvo mánuði og hefjum tökur vonandi 15. september," segir hann og lofar skemmtilegri mynd.

„Kóngavegur 7 er mitt á milli að vera gamanmynd og drama. Þetta á að vera kómedía með léttu og alvarlegu ívafi." Myndin gerist í hjólhýsahverfi og segir frá atburðum sem eiga sér stað þegar Júníor snýr aftur heim til Íslands eftir þriggja ára fjarveru erlendis. Hann kemur heim með ýmis vandræði í farteskinu og vonar að faðir hans leyst úr þeim.

Valdís Óskarsdóttir hefur getið sér gott orð sem einn fremsti klippari Íslendinga og hlaut hin eftirsóttu BAFTA-verðlaun fyrir klippinguna á Eternal Sunshine of the Spotless Mind. - fb








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.