Innlent

Segir kynningarkostnað hvalveiða eitt best geymda leyndarmálið

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Mörður Árnason, fyrrum þingmaður Samfylkingar, spurði um kostnað við kynningu hvalveiða á síðasta þingi.
Mörður Árnason, fyrrum þingmaður Samfylkingar, spurði um kostnað við kynningu hvalveiða á síðasta þingi. Mynd/Valli
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, fékk ekki svar við skriflegri fyrirspurn sinni um kostnað kynningarstarfsemi vegna hvalveiða Íslendinga á Alþingi í dag.

Svari sjávarútvegsráðherra var útbýtt í þinginu áðan og kom þar fram að vegna anna treysti ráðuneytið sér ekki til að svara fyrirspurn Helga, en myndi taka upplýsingarnar saman sem fyrst.

Mörður Árnason, fyrrum þingmaður Samfylkingarinnar, lagði sömu fyrirspurn fram á síðasta þingi og vannst ekki heldur tími til að svara henni þá.

„Þessi kynningarstarfsemi virðist vera eitt allra best geymda leyndarmál stjórnkerfisins," segir Mörður um málið.

„Nú þegar allt er uppi á borðum þá vekur athygli að ekki er hægt að svara nokkrum hlut um málið þrátt fyrir að ráðuneytið hafi fengið þessa fyrirspurn fyrst í mars."

Mörður bendir á skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins Sjónarrandar frá 2006 þar sem kostnaður ríkisins við að vinna að framgangi íslenskra hvalveiða frá 1990 var metinn á tæpar 750 milljónir. Hann telur þá upphæð vera komna yfir milljarð nú.

„Þegar menn reka hvalveiðarnar sem spurningu um kostnað, verð á mörkuðum og annað, þá rétt að vita hver sá kostnaður nákvæmlega er," segir Mörður og segir rétt að taka kostnað við stöðuga kynningarvinnu og áróðursstarf inn í dæmið.

„Þann hluta borga skattborgarar, ekki hvalveiðimenn," segir Mörður að lokum.

Í fyrirspurninni var einnig spurt um hvernig kynningunni á málstað og sjónarmiðum stjórnvalda í hvalveiðimálum undanfarin tíu ár hefði verið háttað. Ráðuneytið svaraði þeirri fyrirspurn almennt og sagði frá samskiptum yfirvalda við stjórnvöld í öðrum löndum og fjölmiðla.

Fyrirspurnina ásamt svörum má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×