Innlent

Líta á þetta sem þjóðþrifamál

Hagfræðistofnun stefnir að því að skila áliti sínu eftir verslunarmannahelgi.
Hagfræðistofnun stefnir að því að skila áliti sínu eftir verslunarmannahelgi.
„Við miðum við að það taki um tíu daga að klára þetta og þetta verður því tilbúið eftir verslunarmannahelgina," svarar Gunnar Ólafur Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, spurningu um hversu langan tíma það taki fyrir stofnunina að skila áliti um Icesave.

Fjárlaganefnd fól Hagfræðistofnun, á fundi sínum á fimmtudag, að skoða álit Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins á Icesave-samningnum, sem lögð voru fyrir fjárlaganefnd á dögunum, og meta þær forsendur sem lágu að baki þeim álitum. Icesave-samningurinn verður ekki ræddur á þingi fyrr en álit Hagfræðistofnunar liggur fyrir.

„Við leggjum mat á þær forsendur og metum hvort þær séu raunhæfar," segir Gunnar. Aðspurður segist hann gera ráð fyrir að fá aðgang að öllum þeim gögnum sem lágu að baki álitunum tveimur.

Margir koma að áliti Hagfræðistofnunar, að sögn Gunnars, en þrír starfa hjá stofnuninni í fullu starfi og nokkrir í hlutastarfi. Einnig er gert ráð fyrir að leitað verði álits sérfræðinga innan hagfræðideildar Háskólans.

En hvað eru þetta miklir peningar sem þið fáið fyrir þetta? „Við lítum á þetta sem þjóðþrifamál og þetta verður svo sem ekki neitt gróðaverkefni," segir Gunnar.

- vsp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×