Innlent

Blaðamenn sömdu við útgefendur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, formaður Blaðamannafélagsins, segir um ágætis varnarsigur að ræða. Mynd/ Anton.
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, formaður Blaðamannafélagsins, segir um ágætis varnarsigur að ræða. Mynd/ Anton.
Blaðamannafélag Íslands og vinnuveitendur skrifuðu undir nýjan kjarasamning í húsakynnum Ríkissáttasemjara stundarfjórðungi fyrir sex í dag. Allir taxtar hækka um 30 þúsund í tveimur skrefum. Taxtahækkunin er afturvirk frá 1. nóvember síðastliðnum en þá hækkar hann um 20 þúsund krónur. Taxtinn hækkar svo aftur þann 1. febrúar um 10 þúsund krónur. Þá hækka öll laun um 2,5% þann fyrsta júní.

Jafnframt mun orlof lengjast um tvo daga hjá þeim starfsmönnum sem hafa unnið lengur en í 10 ár á fjölmiðlum. Þá hækka greiðslur vegna útlagðs kostnaðar blaðamanna. Auk þess felur samningurinn í sér aukin veikindarétt vegna barna.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, formaður Blaðamannafélagsins, segist vera sátt við samninginn. Mikilvægt hafi þótt að ná fram verulegri hækkun lægstu launa. „Þetta er vissulega grimm varnarbarátta og Blaðamannafélagið gengur ekkert gruflandi að því að fjölmiðlar eigi í verulegum fjárhagserfiðleikum um þessar mundir," segir Þóra Kristín. Að því leyti sé þetta góður varnarsigur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×