Erlent

Sagður linur gegn spillingu

Kosningar nálgast í kabúl
Íbúar höfuðborgarinnar við vegg þakin myndum af frambjóðendum.
fréttablaðið/AP
Kosningar nálgast í kabúl Íbúar höfuðborgarinnar við vegg þakin myndum af frambjóðendum. fréttablaðið/AP

Andstæðingar Hamids Karzaí, forseta Afganistans, leggja nú allt kapp á að hann nái ekki hreinum meirihluta í forsetakosningunum, sem haldnar verða 20. ágúst. Takist það þarf að halda aðra umferð, þar sem tveir efstu frambjóðendurnir verða í kjöri.

Gagnrýnendur saka hann um að hafa engan veginn staðið sig í baráttu gegn spillingu í stjórnkerfinu og að stjórn hans geti af litlu státað á flestum sviðum.

Erlendir stjórnarerindrekar í Kabúl taka undir þetta og segja hann sífellt koma sér undan því að taka erfiðar ákvarðanir, sem þarf til að draga bæði úr landlægri spillingu og ofbeldinu sem ekkert lát er á.

Fjörutíu mótframbjóðendur, þar af tvær konur, eiga þó litla möguleika gegn honum nema þeim takist að koma í veg fyrir sigur hans í fyrstu umferð.

Erfitt er að meta líkurnar á sigri, því fáar marktækar skoðanakannanir hafa verið gerðar. Í maí var þó gerð könnun sem spáir honum 35 prósentum atkvæða, en næstur honum með sjö prósent atkvæða kæmi Abdullah Abdullah, sem er utanríkisráðherra í stjórn Karzaí.

Undanfarnar vikur hefur Karzaí þó unnið af miklu afli til að auka fylgi sitt, meðal annars með samningum við héraðsleiðtoga sem geta haft mikil áhrif á afstöðu almennings, hver í sínu héraði.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×