Innlent

Geðklofa stefnt vegna bílaláns

Valur Grettisson skrifar
Samskonar bifreið og maðurinn keypti fyrir lánið.
Samskonar bifreið og maðurinn keypti fyrir lánið.

„Mér finnst það ótrúlegt ábyrgðarleysi að manni eru lánaðar tvær milljónir án þess að greiðslugeta viðkomandi sé skoðuð," segir sonur fimmtugs manns sem er greindur með alvarlegan geðklofa frá unglingsaldri en SP-Fjármögnun lánaði honum rúmar tvær milljónir árið 2006. Peninginn notaði maðurinn til þess að kaupa sér Citroen bifreið.

Afborganir mannsins voru tæpar 40 þúsund krónur á mánuði þangað til krónan féll harkalega eftir efnahagshrun. Þá fóru afborganir mannsins á bílnum upp í 68 þúsund krónur. Maðurinn er haldinn geðklofa og lifir á öryrkjabótum en heildartekjur hans á mánuði eru um 120 þúsund krónur að sögn sonar hans. SP - Fjármögnun krafðist ekki ábyrgðarmanns vegna lánsins.

Geðlæknir sendir bréf

Þegar faðirinn gat ekki staðið undir afborgunum þá fóru áhyggjurnar að leggjast þungt á sálarlíf hans. Úr varð að geðlæknir skrifaði bréf til SP - Fjármögnunar þar sem útskýrt var að hann væri haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og tekjurnar lágar og því væri ekki raunhæft að ætlast til þess að hann gæti borgað af bílnum. Maðurinn fór og skilaði bílnum og taldi að málið félli niður þar með.

Það var svo í maí síðastliðnum sem föður hans barst stefna frá fyrirtækinu. Honum var gert að mæta fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur. SP - fjármögnun krafðist milljón krónur af manninum auk tvöhundruð þúsund krónur í lögfræðikostnað.

Geðsjúkum stefnt

„Þegar ég heyrði þetta þá fékk ég sjokk yfir að þeir höfðu stefnt honum fyrir héraðsdóm verandi með alvarlegan geðsjúkdóm og ekki fellt þessa skuld niður," segir sonur mannsins en þá stóðu þeir í þeirri trú að málinu væri lokið. Bílnum var skilað fyrir áramót og auk bréfsins sem geðlæknir sendi SP -fjármögnun fengu þeir einnig bréf frá félagsráðgjafa hans um alvarlegt ástand mannsins.

Þeir töldu að það nægði.

Hann hefur nú mætt þrisvar fyrir héraðsdóm en félagsráðgjafi hans lagði fram greiðsluáætlun nú á föstudaginn. Faðir mannsins hafði ekki sjálfur séð áætlunina.

Ekki er ljóst hvert raunvirði bifreiðarinnar er en talið er að það nemi einni og hálfri milljón króna.

Ófyrirgefanleg aðgangsharka

Sonur mannsins er mjög vonsvikinn yfir aðgangshörku SP - fjármögnunar sem lánaði andlega veikum manni svo háa fjárhæð án ábyrgðarmanns.

„Þetta er nánast ófyrirgefanlegt. Ég á ekki til orð yfir það," segir sonurinn en hann segist hafa haft samband við aðrar lánastofnanir og spurt hvort þetta gætu verið eðlilegir viðskiptahættir. Hann segir að svörin hjá þeim sem hann hafði samband við hafi verið þau að það væri ekki möguleiki á að lána einstaklingum með svo lágar tekjur svo hátt lán án ábyrgðarmanns.

Hryggur yfir málinu

„Það sem hryggir mig, er að stór lánastofnun eins og SP - Fjármögnun sæki svona hart að mönnum með alvarlega geðsjúkdóma. Það nær engri átt og er ófyrirgefanlegt," segir hann að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×