Innlent

Ólína segist ekki hafa hlegið að eineltisræðu

Ólína Þorvarðardóttir.
Ólína Þorvarðardóttir.

„[...] Þór Saari réðist á mig heiftúðlega með ósannindum um að ég hefði hlegið að eineltistali Birgittu Jónsdóttur á þinginu á föstudag og verið með frammíköll," skrifar Ólína Þorvarðardóttir, þingkona Samfylkingarinnar um bloggfærslu Þórs Saari, þingmanns Borgarahreyfingarinnar sem Vísir sagði frá í síðustu viku.

Þar kom fram að Þór hafi sakað Ólínu um að hafa hlegið að eineltishugmyndum Birgittu Jónsdóttur, þingkonu Borgarahreyfingarinnar, þegar hún var í ræðupúlti. Þetta segir Ólína af og frá.

Hún skrifar sjálf á sitt eigið blogg: „Lágt þykir mér maðurinn leggjast í þessum málatilbúnaði, enda fer hann með hrein ósannindi."

Til rökstuðnings lætur hún hlekk á ræðu Birgittu fylgja með og spyr hvort fólk heyri hana hlæja að ræðunni. Hér má sjá ræðuna. Óljóst er hver á hinn dularfulla hlátur.

Sjálfur virðist Þór standa við sín orð en í athugasemdakerfi við færsluna hans skrifar hann: „Aðrir þingmenn og Ólína vita mæta vel hvað hún sagði í þingsal og einnig að frammíköll nást að jafnaði ekki nema mjög takmarkað á upptökutæki þingsins."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×