Innlent

Ungir jafnaðarmenn leggjast gegn skerðingu á fæðingarorlofi

Ungir jafnaðarmenn leggjast gegn þeim áformum félagsmálaráðherra að skerða fæðingarorlof, hvernig sem þær tillögur verða framkvæmdar. Frá þessu segir í yfirlýsingu frá UJ. Í umræðu hafa verið tillögur um að skerða hámarksgreiðslur niður í 300 þúsund eða að gera foreldrum að fresta töku eins mánaðar af fæðingarorlofi um nokkur ár.

Ungir jafnaðarmenn benda á að nú þegar hafi hámarksgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði verið skornar niður, úr 650 þúsundum í 350 þúsund og að enn sé verið að brýna hnífana. „Ungir jafnaðarmenn gera sér grein fyrir því að ástandið er erfitt og víða þarf að skera niður en hvetja þingmenn og ráðherra að standa vörð um þennan grunnþátt velferðarkerfisins."

Þá er bent á að fæðingarorlof hér á landi sé það stysta samanborið við önnur Norðurlönd og verði stytting fæðingarorlofs að veruleika munu Íslendingar færas enn fjær Norrænu velferðarríkjunum. „Auk þess samræmist stytting fæðingarorlofs engan vegin tilmælum heilbrigðisyfirvalda landsins um aðbúnað og brjóstagjöf ungbarna."

Þá lýsa Ungir jafnaðarmenn yfir áhyggjum af því að skerðing fæðingarorlofs verði skref aftur á við í jafnréttisbaráttunni. „Ungabörn eru háðari móðurinni ef barnið er á brjósti og karlmenn eru jafnan tekjuhærri en konur. Því er viðbúið að karlmenn skerði fæðingarorlof sitt og leiðir það til þess að staða kvenna á vinnumarkaði versnar enn og undið verður ofan af þeim framfaraskrefum sem þó hafa verið stigin með fæðingarorlofskerfinu."

„Er það von Ungra jafnaðarmanna að ríkisstjórnin leiti fjármuna annarsstaðar en í fæðingarorlofssjóði," segir að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×