Innlent

Vilji þóknast landsbyggðarhagsmunum

Örn Sigurðsson
Örn Sigurðsson
Forseti borgarstjórnar er að þóknast landsbyggðarhagsmunum í borginni með málflutningi sínum um Reykjavíkurflugvöll og það er skammarlegt að hann hnýti í eina manninn sem gætir hagsmuna borgarbúa í Sjálfstæðisflokknum, Gísla Martein Baldursson.

Svo segir Örn Sigurðsson, einn talsmanna Samtaka um betri byggð. Hann minnir á að Reykvíkingar hafi kosið sérstaklega gegn flugvellinum árið 2001.

Forseti borgarstjórnar, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, sagði í blaðinu í síðustu viku að ljóst væri að flugvöllurinn yrði ekki færður á næstunni og vísaði til efnahagsástandins í landinu. Hann vildi ekki svara því hvort til greina kæmi að breyta aðalskipulagi til að festa völlinn í sessi.

Örn segir að Vilhjálmur hafi lofað kjósendum sínum fyrir kosningarnar 2006 að flugvöllurinn yrði farinn árið 2016. Að vilja festa flugvöll í sessi vegna efnahagsástandsins sé út í hött.

„Það var alltaf slæmt að hafa flugvöllinn þarna en nú eftir hrunið er markaður innanlandsflugs hruninn. Og unga fólkið sem kemur út á markaðinn næstu ár getur ekki rekið marga bíla til að búa uppi á heiði. Sá tími er liðinn. Núverandi ástand hrópar á að fleirum verði gefinn kostur á að búa á besta stað á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Örn. Vilhjálmur horfi ekki á málið í heild sinni.

„Svo gerir hann lítið úr yfirlýsingu Gísla Marteins um að vera vallarins kosti fjóra milljarða á ári. Borgarstjóri og samgönguráðherra samþykktu að gera úttekt árið 2005 á þessum kostnaði. Samkvæmt henni kostar flugvöllurinn að minnsta kosti fjóra milljarða á ári, á verðlagi ársins 2005. Við teljum þetta vera allt að tíu sinnum dýrara,“ segir Örn.

- kóþ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×