Enski boltinn

Steve Bruce bálreiður Zaki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Amr Zaki í leik með Wigan.
Amr Zaki í leik með Wigan. Nordic Photos / Getty Images

Steve Bruce, knattspyrnustjóri Wigan, er bálreiður Egyptanum Amr Zaki sem hefur enn ekki mætt til vinnu sinnar hjá félaginu eftir landsleikjafríið um þarsíðustu helgi.

Egyptaland gerði um helgina 1-1 jafntefli við Zambíu fyrir rúmri viku og skoraði Zaki mark Egyptalands í leiknum.

„Við höfum ekki heyrt neitt í honum. Við ræddum þó lengi við umboðsmanninn hans á bæði mánudag og þriðjudag í síðustu viku," sagði Bruce. „Við teljum að hann sé meiddur á vöðva aftan í læri en vitum ekki hversu slæmt það er. En sú vanvirðing sem hann hefur sýnt er ótrúleg, ekki aðeins gagnvart félaginu heldur einnig liðsfélögum hans."

Zaki var í haust lánaður til Wigan frá El Zamalek í heimalandi hans og skoraði níu mörk í sínum fyrstu þrettán leikjum á tímabilinu. Hann hefur hins vegar ekki enn skorað á þessu ári.

Þetta er heldur ekki í fyrsta sinn sem hann mætir seinna en áætlað var til félagsins úr landsleikjafríi. Bruce hefur nokkrum sinnum sektað hann og gæti gert það aftur nú.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×