Innlent

Reyndi að nauðga vinkonu dóttur sinnar

Sólmundur Hólm Sólmundarson skrifar
Hæstiréttur dæmdi manninn í 15 mánaða fangelsi og til greiðslu skaðabóta upp á 600 þúsund krónur.
Hæstiréttur dæmdi manninn í 15 mánaða fangelsi og til greiðslu skaðabóta upp á 600 þúsund krónur. Mynd/ Valli

Hæstiréttur staðfesti í dag dóm héraðsdóms Reykjaness yfir karlmanni sem dæmdur var í fimmtán mánaða fangelsi fyrir tilraun til nauðgunar. Maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa reynt að hafa samræði eða önnur kynferðismök við 16 ára stúlku sem var gestkomandi á heimili hans í apríl á síðasta ári.

Stúlkan var vinkona dóttur mannsins en hún var í heimsókn ásamt tveimur öðrum vinkonum sínum. Maðurinn hafði komið ölvaður heim og lagst við hlið stúlkunnar þar sem hún lá sofandi í herbergi dóttur hans. Hann reyndi að gyrða niður buxur stúlkunnar og er hún vaknaði tók hann fyrir vit hennar og hótaði að meiða hana hefði hún ekki hljótt. Maðurinn lét ekki af háttsemi sinni fyrr en kona hans kom inn í herbergið og réðst á hann.

Frásögn stúlkunnar var talin trúverðug og að öllu leyti í samræmi við framburð vitna. Talið var að háttsemi mannsins bæri þess skýr merki að fyrir honum hafi vakað að beita stúlkuna kynferðislegu ofbeldi. Yrði ekki við annað miðað en að tilviljun hafi ráðið því að honum hafi ekki tekist ætlunarverk sitt. Þá lá fyrir að stúlkan hafði átt erfitt uppdráttar eftir árásina.

Refsing var ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Þá var hann einnig dæmdur til greiðslu miskabóta til stúlkunnar sem ákveðnar voru 600.000 krónur.

Málið dæmdu hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×