Innlent

Lífeyrisþegar verða krafðir um 4 milljarða í endurgreiðslu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Tryggingastofnun. Mynd/ GVA.
Tryggingastofnun. Mynd/ GVA.
Alls var 4,1 milljarður greiddur til lífeyrisþega umfram rétt árið 2008 og verða þeir sem fengu ofgreitt krafðir um endurgreiðslu. Um 700 milljónir króna voru vangreiddar og eiga um 9000 lífeyrisþegar inneign hjá Tryggingastofnun, sem greidd verður út á næstu dögum.

Þetta kemur fram á vef Tryggingastofnunar, en stofnunin hefur lokið árlegum endurreikningi og uppgjöri tekjutengdra bóta lífeyrisþega fyrir árið 2008. Við endurreikninginn eru bætur sem lífeyrisþegum hafa verið greiddar á bótaárinu bornar saman við bætur sem þeir áttu rétt á að fá samkvæmt skattframtali ársins. Lífeyrisþegum verður á næstu dögum sent bréf með niðurstöðunum og veitt ráðrúm til andmæla.

Heildarfjöldi lífeyrisþega er tæplega 46 þúsund, þar af eru um 16 þúsund örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar og 30 þúsund ellilífeyrisþegar. Heildarfjárhæð tekjutengdra bóta árið 2008 nam um 42 milljörðum króna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×