Lífið

Magnús Þór semur fyrir Fjallabræður

Fjallabræður Senda frá sér plötu fyrir jól.
Fjallabræður Senda frá sér plötu fyrir jól.

„Fjallabræður og Magnús eiga einhvern veginn saman – við erum búnir að eignast nýjan bróður,“ segir Halldór Gunnar Pálsson, kórstjóri vestfirska kórsins Fjallabræðra.

Tónlistarmaðurinn Magnús Þór Sigmundsson hefur tekið kórinn undir sinn verndarvæng og samið handa honum lögin Til fjalla og freyja. Magnús kom fram með kórnum í söfnunarþættinum Á rás fyrir Grensás í gærkvöldi.

Sagan af upphafi samstarfsins hefst í Hveragerði, þar sem Fjallabræður tróðu upp fyrir vestfirska eldri borgara á Hótel Örk.

„Við tókum alltaf Ísland er land þitt [eftir Magnús] til að komast í fíling. Svo ræddum við um að það yrði gaman að hitta karlinn og spyrja hvort við mættum nota lagið á plötunni okkar,“ segir Gunnar. Magnúsi var þá boðið að koma á Hótel Örk og hlusta á flutninginn og tókust þá góð kynni með honum og Fjallabræðrum, kynni sem bera ávöxt á fyrstu plötu bræðranna sem er væntanleg.

Gunnar er gríðarlega ánægður með samstarfið og vefst tunga um tönn þegar hann er beðinn um að lýsa Magnúsi. „Hann er svona… Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa því. Hann segist vera álfur og hann er náttúrulega af öðrum heimi. Hann hugsar öðruvísi en flestir – hugsar skemmtilega. Það er mjög gaman að vinna með honum.“ - afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.