Erlent

Tæpt tonn af kókaíni í frosnum hákörlum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Hermenn við leit í einum hákarlanna.
Hermenn við leit í einum hákarlanna. MYND/Mexíkóski sjóherinn/CNN

Það var við höfnina í Progresso í Yucatan-fylkinu sem hermenn úr sjóher Mexíkó unnu við að gegnumlýsa frystigáma sem komið höfðu með flutningaskipinu Dover Strait frá Costa Rica á þriðjudaginn.

Eitthvað torkennilegt sýndist þeim vera í tveimur gámanna og voru þeir því teknir til nánari skoðunar. Í gámunum voru frosnir hákarlar á leið á markað í Mexíkó, ekkert óvenjulegt við það. Þegar hermennirnir tóku sig hins vegar til og ristu á kvið eins hákarlsins komu í ljós fjölmargir pakkar með svörtu plasti utan um.

Þarna reyndist auðvitað heilmikill kókaínfarmur á ferðinni sem einnig var á leið á markað í Mexíkó, þó varla sama markað og hákarlarnir. Þegar öll kurl voru komin til grafar höfðu hermennirnir dregið tæpt tonn af kókaíni, eða 894 kílógrömm, út úr skepnunum í alls 870 pökkum.

Fíkniefnasmyglarar í Mexíkó og ríkjum Mið- og Suður-Ameríku hafa gerst æ hugmyndaríkari undanfarin ár eftir því sem her og lögregla hafa lagt meira á sig við að uppræta starfsemi þeirra og leggja hald á efni á leið á markaði í Mexíkó, Bandaríkjunum og víðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×