Innlent

Olíuverð hækkar

Mynd/Stefán Karlsson
Olíufélögin hækkuðu bensínlítrann um um það bil tvær krónur í gær og gasolíuna um eina krónu, en óvenju mikið flökt hefur verið á eldsneytisverði upp á síðkastið.

Þannig hafa orðið 22 verðbreytingar síðan fyrsta nóvember, bæði til hækkunar og lækkunar. Sjálfsafgreiðsluverð hjá stóru félögunum er nú 187,70 fyrir bensínlítrann, sem er vel á þriðju krónu lægra verð en var fyrsta nóvember. Dísilolían er líka ódýrari nú en þá.

Óvíst er hversu lengi þetta verð heldur, því olíuverð hækkaði á markaðnum í New York í morgun og er komið í rétt tæpa 77 dollara á tunnuna.

Það hækkaði fleira í morgun því heimsmarkaðsverð á áli fór í 2.130 dollara tonnið, miðað við þriggja mánaða framvirka samninga á markaðinum í London. Álverðið hefur ekki verið hærra á þessu ári og raunar ekki hærra síðan um mitt sumar í fyrra. Það eru jákvæðar fréttir fyrir íslenska hagkerfið því því raforkuverð til álveranna er tengt heimsmarkaðsverði á áli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×