Lífið

Bókalestur og jólaglögg

Menningarlegur Haraldur Jónsson listamaður segir að erfitt hafi verið að velja úr hópi þeirra rithöfunda sem gefa út fyrir jólin. Fréttablaðið/gva
Menningarlegur Haraldur Jónsson listamaður segir að erfitt hafi verið að velja úr hópi þeirra rithöfunda sem gefa út fyrir jólin. Fréttablaðið/gva

Bókaupplestur er orðinn að árlegum viðburði fyrir jól á skemmtistaðnum Boston. Upplesturinn fer fram á laugardag og eru það rithöfundarnir Oddný Eir Ævarsdóttir, Huldar Breiðfjörð, Kristín Ómarsdóttir, Jón Karl Helgason og Snorri Ásmundsson sem munu lesa upp úr bókum sínum.

Listamaðurinn Haraldur Jónsson stendur fyrir uppákomunni og er þetta þriðja árið sem slíkur bókaupplestur fer fram. „Þetta er einstakt tækifæri fyrir fólk til að koma og smakka á jólarjóma bókmenntanna. Þetta er mjög fjölbreytt safn bóka sem fjalla um ýmislegt misjafnt. Ein er ævisaga sem gerist á þremur dögum, önnur gerist á heilsuhæli, sú þriðja gerist í ónefndri borg sem erfitt er að staðsetja á landakorti en allir þekkja, enn ein spáir um nýja tíma og svo er þarna einnig frumleg ferðasaga sem gerist í Færeyjum,“ útskýrir Haraldur og bætir við að erfitt hafi verið að velja bækur úr því bókaflóði sem kemur út fyrir jólin.

„Það er sagt að stund ákvörðunarinnar sé augnablik sturlunar. Það var erfitt að velja úr þeim stóra hópi rithöfunda sem eru að gefa út fyrir jólin en ég reyndi að velja sögur sem mér þóttu myndrænar í frásögn og sem falla ekki endilega undir hið hefðbundna íslenska söguform.“

Haraldur hvetur alla bókaunnendur að mæta og tekur fram að hægt verði að kaupa jólaglögg og piparkökur á meðan hlýtt er á lesturinn.

Upplesturinn hefst klukkan 16.00 á laugardag og fær hver höfundur um fimmtán mínútur til upplestrar. -sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.