Innlent

Rúmir 23 milljarðar hafa þegar fallið á Íslendinga vegna Icesave

Sigríður Mogensen skrifar
Um tuttugu og þrír milljarðar króna hafa nú þegar fallið á Íslendinga í formi vaxta vegna Icesave, þrátt fyrir að Alþingi eigi eftir að samþykkja ríkisábyrgð á lánum frá Bretum og Hollendingum. Vextir hafa safnast upp frá því í janúar. Ragnar Hall, hæstaréttarlögmaður, segir það fráleitt skilyrði að lán beri vexti löngu áður en samið er um lántökuna.

Í lánasamningum Íslendinga við Hollendinga og Breta vegna Icesave er ákvæði um að lánin beri vexti frá 1. janúar 2009.

Frumvarp fjármálaráðherra gengur út á að veita Tryggingarsjóði innstæðueiganda og fjárfesta ríkisábyrgð vegna lána til sjóðsins frá breska og hollenska ríkinu. Icesave samningarnir við Breta og Hollendinga voru undirritaðir þann 5.júní síðastliðinn.

Hins vegar hafa vextir safnast upp frá því í byrjun janúar. Samkvæmt útreikningum fréttastofu hafa því um 23 milljarðar króna nú þegar fallið á Íslendinga í formi vaxta, þrátt fyrir að ríkisábyrgð Alþingis vegna Icesave liggi ekki fyrir.

Ragnar Hall, hæstaréttarlögmaður, segir að Íslendingum beri engin lagaleg skylda til að greiða vexti áður en greiðsluskylda íslenska innistæðutryggingasjóðsins sé virk.

Indriði Þorláksson, aðstoðarmaður Fjármálaráðherra, sagði í samtali við fréttastofu í dag að Íslendingar hafi í raun tekið lánin í október. Þá hafi Hollendingar og Bretar innt greiðslur til innistæðueiganda Icesave af hendi. Það hafi síðan verið samningsatriði að lánin skyldu bera vexti frá áramótum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×