Lífið

Sögufrægir búningar boðnir upp í Þjóðleikhúsinu

Tinna gunnlaugsdóttir Þjóðleikhússtjórinn ætlar að klæðast Smirnoff-kjólnum úr Ástin er diskó – lífið er pönk á uppboðinu á morgun.fréttablaðið/arnþór
Tinna gunnlaugsdóttir Þjóðleikhússtjórinn ætlar að klæðast Smirnoff-kjólnum úr Ástin er diskó – lífið er pönk á uppboðinu á morgun.fréttablaðið/arnþór

Opið hús verður í Þjóðleikhúsinu á morgun og af því tilefni verða sögufrægir búningar boðnir upp um þrjúleytið.

„Þetta verður bara gaman. Þetta eru rosafínir búningar og það verður örugglega slegist um þetta,“ segir leikkonan Ólafía Hrönn Jónsdóttir, sem verður uppboðshaldari.

Alls verða fimm búningar boðnir upp úr jafnmörgum leikritum og munu þekkt andlit úr Þjóðleikhúsinu klæðast þeim í von um að gera þá enn þá söluvænlegri. Sjálfur þjóðleikhússtjórinn Tinna Gunnlaugsdóttir mun klæðast Smirnoff-kjólnum úr söngleiknum Ástin er diskó – lífið er pönk, Björn Thors verður í kóngabúningnum úr Hamlet, Birgitta Birgisdóttir klæðist búningi Grétu úr leikritinu Hans og Gréta, Friðrik Friðriksson verður í búningi bakaradrengsins úr Dýrunum í Hálsaskógi og Sigríður Þorvaldsdóttir klæðist búningi Soffíu frænku úr Kardemommubænum.

Ekki hefur verið ákveðið hvert upphafsverð búninganna verður en ljóst er að margir eiga eftir að bera víurnar í þá, enda ekki á hverjum degi sem almenningi gefst kostur á að eignast slíka kostagripi. Á opna deginum í fyrra voru til sölu sæti úr Þjóðleikhúsinu og kostaði stykkið sjö þúsund krónur. Runnu þau út eins og heitar lummur og prýða nú heimili íslenskra leikhússáhugamanna.

Ólafía Hrönn á von á skemmtilegum opnum degi bæði í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu, þar sem hann verður haldinn sama dag. „Það er um að gera fyrir fólk að fara í bæði húsin og taka pylsurnar hér og fá sér síðan vöfflurnar úr Borgarleikhúsinu,“ segir hún.

„Það er mjög sniðugt fyrir fjölskyldur að koma og sjá hvernig veturinn lítur út hérna. Það var ógurlega gaman í fyrra. Þá var fólk að koma með börnin sín og þau sáu leikarana í nálægð. Krökkunum fannst það rosalega gaman.“

Á opna deginum, sem stendur yfir frá 13 til 16, verður jafnframt skráning í áheyrnarprufur fyrir söngleikinn Oliver! sem verður frumsýndur í febrúar. Leitað er að 20 til 30 drengjum á aldrinum 8 til 13 ára sem munu fara með hlutverk Olivers, Hrapps og drengjanna í þjófaflokknum og á munaðarleysingjahælinu.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.