Innlent

Skaðabótamál ríkisins yrðu ekki síst táknræn

Á góðri stundu Björgólfur Guðmundsson var formaður bankaráðs Landsbankans og Davíð Oddsson formaður bankastjórnar Seðlabankans. Til skoðunar er hvort brotleg eða gáleysisleg framganga tiltekinna einstaklinga eða lögaðila hafi leitt til tjóns fyrir íslenska ríkið og hvort það geti höfðað skaðabótamál á hendur viðkomandi. Icesave Landsbankans og ástarbréf Seðlabankans eru meðal þess sem skoðað er.  
fréttablaðið/gva
Á góðri stundu Björgólfur Guðmundsson var formaður bankaráðs Landsbankans og Davíð Oddsson formaður bankastjórnar Seðlabankans. Til skoðunar er hvort brotleg eða gáleysisleg framganga tiltekinna einstaklinga eða lögaðila hafi leitt til tjóns fyrir íslenska ríkið og hvort það geti höfðað skaðabótamál á hendur viðkomandi. Icesave Landsbankans og ástarbréf Seðlabankans eru meðal þess sem skoðað er. fréttablaðið/gva

Mögulegar málsóknir á hendur þeim sem sýna má fram á að hafi valdið ríkinu og almenningi fjárhagslegu tjóni með athöfnum sínum í aðdraganda bankahrunsins yrðu ekki síst táknræns eðlis.

Fréttablaðið greindi frá því á laugardag að athugun á slíkum málsóknum sé hafin. Löglærðir starfsmenn fjögurra ráðuneyta sitja í starfshópi sem lýtur forræði fjármálaráðuneytisins. Sérfræðingar á sviði skaðabótaréttar koma einnig að matinu.

Viðmælendur blaðsins, innan og utan stjórnsýslunnar, segja það vitaskuld fjarstæðu að ríkissjóður geti endurheimt alla þá peninga sem á hann féllu vegna bankahrunsins. Því verði málsóknir bæði til að sýna fram á að réttlætis sé gætt auk þess sem þær yrðu eðlileg hagsmunagæsla þjóðarbúsins.

Óumdeilt er að ríkið varð fyrir stórtjóni við bankahrunið. Á það hafa fallið gríðarlegar skuldbindingar vegna ýmissa viðskipta banka og taps Seðlabankans vegna lánveitinga til þeirra. Hleypur tjónið á hundruðum milljarða.

Sönnunarkröfur í skaðabótamálum eru með öðrum hætti en í opinberum málum. Ef fyrirliggjandi gögn sýna brotlega eða gáleysislega framgöngu tiltekinna einstaklinga eða lögaðila sem leitt hefur til tjóns fyrir íslenska ríkið er unnt að huga að skaðabótamálum án þess að afráða þurfi fyrst um refsinæmi háttseminnar. Sönnunarkröfurnar í einkamáli eru vægari en í refsiréttarmáli en engu að síður verður sá sem heldur fram skaðabótaskyldu annars að sýna fram á sannanir því til stuðnings.

Ljóst er að málshöfðun vegna skaðabótakröfu ríkisins þarfnast mikils undirbúnings og viðbúið að málsmeðferð tæki langan tíma fyrir dómstólum. Lögfræðingar, sem Fréttablaðið ræddi við, segja að ríkið verði að geta sýnt með nákvæmum hætti fram á skaða og tengsl sakbornings við ákveðnar aðgerðir eða verk sem unnin voru í viðskiptabönkunum eða í opinberum stofnunum. Málsvörnin gæti svo falist í að allt sem viðkomandi gerði hafi rúmast innan ramma laganna.

Ekki liggur fyrir hvenær nefnd ráðuneytanna skilar af sér mati og tillögum til fjármálaráðherra. Henni eru ekki sett tímamörk.

bjorn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×