Innlent

Býður upp á hátíðarmatseðil Jóhönnu og Steingríms

Sólmundur Hólm Sólmundarson skrifar
„Þetta er það sem að maður hefur um að velja þegar við erum búin að borga Icesave," segir kvikmyndagerðamaðurinn Magnús Magnússon sem ákvað að bjóða upp á hátíðarmatseðil fyrir utan Alþingishúsið í dag. Matseðillinn bar yfirskriftina: „Hátíðarmatseðill í boði Jóhönnu og Steingríms".

Magnús mætti fyrst með kerru en á henni var dekkað borð með heilum þorski og ýsu. Þegar lögregla hafði afskipti af honum vegna þess hve fyrirferðamikil kerran var tók hann borðið og áróðursskilti sem einnig var þar og setti á túnið fyrir framan alþingi.

Magnús segir mótmælin einnig til þess gerð að mótmæla inngöngu í ESB sem hann telur ekki vera góðan kost fyrir Íslendinga. „Ég er búinn að tala við fólk sem í Evrópusambandinu, bæði frá Svíþjóð og Færeyjum. Fólk segir að það sé brjálæði að vera þarna. Það segir: „Þið getið farið þarna inn og þið ráðið engu. Ef þig langar að vinna níu tíma þá máttu það ekki." Þarna verðum við brotin niður sem þjóð," segir Magnús.

Hann efast einnig um hvaða hagsmunum ráðamenn eru að berjast fyrir. „Þeir vilja komast inn á Evrópuþingið því ef þeir eru þar í fjögur til fimm ár þá eru þeir á launum það sem eftir er. Þetta eru eiginhagsmunir út í eitt," segir Magnús.

Magnús býður sem fyrr segir upp á þorsk og ýsu. „Já og svolítið af músum. Svo er náttúrulega naglasúpa. Hún verður aðalréttur 2020. Naglasúpa og tvö túlípanablöð sem Hollendingar færa okkur þegar þeir koma með haustskipinu 2020."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×