Innlent

Íslenskur eldisfiskur til Evrópu

50 tonnum af eldisþorski var slátrað og flutt á markaði í Evrópu. Gott verð fæst fyrir fiskinn nú um stundir.
50 tonnum af eldisþorski var slátrað og flutt á markaði í Evrópu. Gott verð fæst fyrir fiskinn nú um stundir. fréttablaðið/vilhelm

HB Grandi hefur flutt út 50 tonn af eldisþorski til Evrópu. Fiskurinn kemur úr tilraunaeldi fyrirtækisins í Berufirði og hefur verið tvö ár í sjó. Um hágæðahráefni er að ræða segir Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri fyrirtækisins.

Fiskurinn er blóðgaður strax eftir slátrun á Berufirði og ísaður í kör og fluttur til Akraness þar sem hann er unninn. Þar er hann flakaður og hnakkastykkið síðan tekið úr honum. „Það er besti bitinn og við fljúgum með hann til Evrópu. Þetta er mjög góð vara,“ segir Eggert.

Um tilraunaverkefni er að ræða og hefur það gengið mjög vel. „Það er ýmislegt sem þarf að rannsaka; hve góð nýtingin er, gæðin – hvort los er í holdinu og þess háttar – og svo hvernig best er að haga vinnsluferlinu; hve langur tími líður frá blóðgun til vinnslu. Svo þarf að huga að arðsemisþættinum, vaxtahraða og fóðurnýtingu. Verðið er gott núna og besti tíminn til að selja þorsk í Evrópu um jól og áramót, enda stíluðum við upp á það.“

Á milli jóla og nýárs var 20 tonnum slátrað og unnin og önnur 30 strax eftir áramót. Það sem eftir er af fiskinum þegar hnakkastykkið er farið er ýmist selt ferskt eða fryst. Hluti af því fer í harðfisksvinnslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×