Innlent

Sigríður Andersen vill á þing

Sigríður Ásthildur Andersen er starfandi lögmaður.
Sigríður Ásthildur Andersen er starfandi lögmaður.

Sigríður Á. Andersen héraðsdómslögmaður tekur þátt í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík í næsta mánuði og mun sækjast eftir stuðningi flokksmanna í eitt af efstu sætum.

Sigríður er 37 ára Reykvíkingur og starfar við lögmennsku. Hún hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá unga aldri, meðal annars setið í miðstjórn flokksins og gegnt formennsku í einu af sjálfstæðisfélögunum í Reykjavík.

Sigríður skipaði 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður við kosningarnar árið 2007. Hún er nú 1. varaþingmaður flokksins í kjördæminu og hefur einu sinni tekið sæti á Alþingi, um miðjan október síðastliðinn.

„Að mínu mati verða meðal brýnustu verkefna stjórnvalda næstu misserin að endurskoða peningamálastefnuna og áherslur í ríkisfjármálum. Þá er afar mikilvægt að skýr stefna liggi fyrir um að koma þeim fyrirtækjum sem lent hafa í fangi ríkisins undanfarið aftur í hendur einkaaðila. Á þessum þáttum hef ég ákveðnar skoðanir sem ég tel eiga hljómgrunn meðal sjálfstæðismanna. Flokksmenn hafa kallað eftir endurnýjun á framboðslistum flokksins um land allt. Með því að gefa kost á mér í eitt af efstu sætunum í höfuðborginni vil ég leggja mitt af mörkum í þeim efnum," segir Sigríður í tilkynningu sem hún sendi fjölmiðlum.

Eiginmaður Sigríðar er Glúmur Jón Björnsson efnafræðingur og eiga þau eina dóttur og von á annarri á næstu dögum. Á heimasíðu Sigríðar má nálgast frekari upplýsingar hana og stefnumál hennar og áherslur í efnahagsmálum næstu missera.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×