Innlent

Ögmundur vill kjósa strax um Icesave

Mynd/Arnþór Birkisson
Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, segir að það sé staðreynd að flestir, ef ekki allir, þingmenn hafi komist að niðurstöðu í Icesave málinu. Hann vill því kjósa strax um málið því frekari tafir á Alþingi þjóni engum sýnilegum tilgangi.

„Frekari gögn kynnu vissulega að varpa ljósi á málið. Það breytir þó ekki því að samningurinn liggur fyrir undirritaður, lagafrumvarp er á borðum Alþingis í samræmi við þennan undirritaða samning, sem þorri stjórnarmeirihluta er staðráðinn í að samþykkja og stjórnarandstaða að hafna," segir þingmaðurinn í pistli á heimasíðu sinni um stöðu Icesave málsins á Alþingi. Frekari tafir þjóni engum tilgangi.

Ögmundur gagnrýnir aðkomu stjórnarliða, stjórnarandstöðu og fjölmiðlafólks að málinu. „Það er staðreynd að Alþingi hefur reynst ófært um að koma sameinað að lausn vandans, bæði vegna þess hvernig að málinu hefur verið staðið af hálfu stjórnarmeirihlutans og einnig vegna hins að stjórnarandstöðunni hefur ekki tekist að rísa yfir sjálfa sig og taka á málinu óháð flokkspólitískum hagsmunum. Fjölmiðlafólk hefur því miður alltof margt skipst í fylkingar eftir slíkum landamærum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×