Innlent

Forseti ASÍ: Ríkisstjórnin brýtur samninga

Mynd/Pjetur
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir ríkisstjórnina brjóta gegn ákvæðum gildandi kjarasamninga og svíkja þar með yfirlýsingar fyrri ríkisstjórna. Gylfi segir að samstarf launþegahreyfingarinnar við ríkisstjórnina sé í uppnámi.

Gylfi segir í pistli á vef ASÍ að ríkisstjórnin ætli sér einhliða að fella niður sérstaka umsamda 3000 króna hækkun persónuafsláttar í ársbyrjun 2011 án nokkurs samráðs eða samtals við sinn viðsemjanda.

ASÍ samdi við ríkisstjórn Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um sérstaka hækkun persónuafsláttar, sem koma myndi til framkvæmda í þremur áföngum 2009, 2010 og 2011. „Var þetta hluti af gildandi kjarasamningum til þess að treysta stöðu þeirra tekjulægstu. Það er með ólíkindum að verða vitni að því, að stjórnvöld telja sig ekkert bundin af þeim samningum sem þau gera við verkalýðshreyfinguna."

Gylfi segir að í því samráði sem fram fór við undirbúning tekjulagafrumvarps ríkisstjórnarinnar hafi ASÍ lagt áherslu á

þrennt. Í fyrsta lagi að tekið yrði upp lægra þrep á lægri tekjur, í öðru lagi að hægt yrði að verja tímabundna frestun á verðtryggingarákvæði persónuafsláttar um ein áramót vegna upptöku lægra skatthlutfalls á lægri tekjur og í þriðja lagi að samkomulag ASÍ við gerð kjarasamninganna í febrúar 2008

um sérstaka 7000 króna hækkun persónuafsláttar í þremur áföngum héldi gildi sínu.

Langtímaáhrifin af framgöngu ríkisstjórnarinnar er alvarleg, að mati Gylfi. „Í raun er verið að undirstrika að það sé mjög varasamt fyrir launafólk að treysta á aðkomu stjórnvalda við gerð kjarasamninga - slíkt sé stundarfyrirbrigði sem hafi lítið langtímagildi."

Gylfi segir að þetta sé mikið hættuspor. „Með þessu er ekki

einungis verið að brjóta áratuga langa hefði fyrir nánu þríhliða samstarfi um mótun og viðhald stöðuleika heldur hitt að áframhaldandi samstarf er sett í uppnám við aðstæður þar sem fyrirsjáanlegt er að það mun einmitt reyna á slíkt samstarf á næstu árum á meðan við glímum við afleiðingar fjármálakreppunnar."

Pistil Gylfa er hægt að lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×