Innlent

Neyðarsendir undir bryggju

Varðskipið Ægir dró togarann til hafnar í október.
mynd/landhelgisgæslan
Varðskipið Ægir dró togarann til hafnar í október. mynd/landhelgisgæslan

Neyðarsendir úr grænlenska togaranum Qavak frá Grænlandi fannst undir bryggju á Ægisgarði þar sem skipið liggur. Merki bárust frá sendinum á laugardag og Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar ræsti út félaga í Flugbjörgunarsveitinni í kjölfarið.

Qavak varð vélarvana 200 sjómílur suð-vestur af Reykjanesi í október og var dregið til hafnar í Reykjavík. Nýlega var svo brotist um borð í skipið. Þá var rifinn upp björgunarbátur og er talið líklegt að á sama tíma hafi neyðarsendirinn verið fjarlægður og hent á milli skips og bryggju.

Miðanir bentu strax til að sendirinn væri undir bryggjunni og fannst hann eftir að togarinn hafði verið færður til, en að því verki kom færeyski dráttarbáturinn Thor Goliath sem mun draga togarann til viðgerðar í Danmörku.

Félagar úr Flugbjörgunarsveitinni tóku við sendinum og slökktu á útsendingum hans. Neyðarsendar af þessari gerð senda frá sér merki sem kemur upp á öllum vaktstöðvum sem fylgjast með merkjum frá slíkum sendum. Því var nauðsynlegt að finna sendinn tafarlaust og slökkva á neyðarsendingunni með ærinni fyrirhöfn og tilkostnaði. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×