Erlent

Bréf Hitlers, Churchills og fleiri til sýnis í New York

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Rendell í sýningarsal sínum.
Rendell í sýningarsal sínum.

Bréf frá Adolf Hitler, þar sem fyrirskipað er að Berlín skuli varin meðan nokkur maður stendur uppi, er meðal muna á sýningu stríðsgrúskara nokkurs í New York.

Kenneth Rendell er 67 ára gamall og rekur gallerý í New York sem kennt er við hann. Í tilefni þess að 70 ár eru nú liðin frá innrás Þjóðverja í Pólland og upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar hefur Rendell dregið ávöxt ævistarfs síns fram, heilmikið safn bréfa og skjala sem mörg hver fóru milli þjóðar- og stríðsleiðtoga og skópu í sumum tilfellum fjölda manns örlög.

Rendell segir safnið vera fullt af draugum, eins og hann orðar það, og vissulega svífur andi þessa hörmungartíma þar yfir vötnum. Bréf Hitlers um Berlínarvörnina er eitt en Rendell lumar einnig á bréfi sem breski forsætisráðherrann Winston Churchill skrifaði Frakklandsforseta þar sem hann eys yfir hann skömmum vegna breskra hermanna sem týndu lífinu við að bjarga franskri hersveit. Churchill sendi bréfið hins vegar aldrei en sá sig um hönd og skrifaði annað mildara.

John F. Kennedy biður um að vera færður yfir á tundurskeytabát á Suður-Kyrrahafi í bréfi frá 1943 og er það væntanlega forsmekkurinn að því að hann réðst til þjónustu á stríðsfleyinu PT-109 þar sem hann vann hetjudáð og bjargaði nær allri áhöfninni eftir að japanski tundurspillirinn Amagiri sigldi skipið í kaf 2. ágúst 1943.

Önnur bréf eru meðal annars til og frá Harry Truman, George Patton, eyðimerkurrefnum Irwin Rommel og Benito Mussolini.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×