Innlent

Heimdallur hvetur stjórnina til að draga andann djúpt

Árni Helgason, formaður Heimdalls.
Árni Helgason, formaður Heimdalls.
Heimdallur hvetur ríkisstjórnina til að draga andann djúpt í Icesave málinu. Félagið vill að frumvarp ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð vegna Icesave reikninga Landsbankans verði sett í salt í bili.

„Augljóst er að Icesave-málið er eitt stærsta mál sem íslenskt stjórnkerfi og íslenskir stjórnmálamenn hafa glímt við. Niðurstaða málsins mun hafa mikil áhrif á efnahagslegan styrk þjóðarinnar næstu áratugina og örlög komandi kynslóða í landinu. Það er því skýlaus krafa að allt verði gert sem í okkar valdi stendur til þess að berjast fyrir okkar málsstað og að kjörnir fulltrúar hefji málið upp úr skotgröfum og flokkapólitík á næstu misserum,“ segir í ályktun Heimdalls.

Þar segir að hafa verði hugfast að margt hafi breyst í heiminum frá því í október 2008 og ekki sé sami þrýstingur og áhyggjur í heiminum vegna hugsanlegs allsherjarhruns á fjármálamörkuðum og hafi verið þá.

Heimdallur leggur til að í stað þess að afgreiða ríkisábyrgð á Icesave málinu setji stjórnvöld málið í salt í bili og einbeiti sér þess í stað að því að kynna málsstað Íslands með skipulögðum hætti, einkum gagnvart þingflokkum, stjórnvöldum og fjölmiðlum í Evrópu. „Í slíkri kynningu ber að leggja áherslu á þær byrðar og áhættu sem gert er ráð fyrir að örríkið Ísland axli, þá meðferð sem okkur var sýnd með setningu hryðjuverkalaga af hálfu breskra stjórnvalda og með hvaða hætti Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur verið beitt í málinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×