Innlent

Jólaþjófar skiluðu skrauti

Jólaskraut. Mynd úr safni.
Jólaskraut. Mynd úr safni.

Nokkuð bar á þjófnaði á jólaskrauti úr görðum bæjarbúa í síðustu viku samkvæmt lögreglunni á Akranesi.

Mörgu var stolið, jólaseríum og jólaljósum af öllum gerðum og stærðum auk þess sem þjófarnir höfðu á brott með sér jólasvein og snjókarl sem festir voru niður á gangstéttarhellur í garði einum.

Hellurnar tóku þjófarnir með.

Lögreglumenn áttu svo leið framhjá íbúð í fjölbýlishúsi í bænum um síðastliðna helgi í hefðbundnu eftirliti. Inn um glugga sáu þeir að íbúarnir höfðu fest upp mikið magn af útijólaljósum inni í stofu og þar á meðal stóð vel upplýstur snjókarl úti í glugga.

Bönkuðu lögreglumennirnir upp á og fundu þar megnið af jólaljósunum og skrautinu sem stolið hafði verið undanfarnar vikur. Daginn eftir bönkuðu þjófarnir upp á á lögreglustöðinni og skiluðu restinni. Jólasveinninn og snjókarlinn komust þar með aftur í hendur eiganda sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×