Lífið

Klárlega markaður fyrir Sumar á Íslandi

Buffið er með lag á plötunni Sumar á Íslandi.
Buffið er með lag á plötunni Sumar á Íslandi.

„Lagið frá Buffinu heitir Prinsessan mín og er fyrsta lagið sem sveitin sendir frá sér sem er ekki eftir neinn meðlim sveitarinnar," svarar Hannes Friðbjarnarson meðlimur Buff aðspurður út í þeirra framlag á nýrri safnplötu sem ber heitið „Sumar á Íslandi," með vinsælustu hljómsveitum landsins.

„Lagið er eftir Dr.Gunna og kom það til þannig að Doktorinn hreinlega bað okkur um að taka lag eftir sig, fyrir rúmu ári síðan, þá var staðan hjá okkur þannig að við vorum í óðaönn að klára plötuna okkar sem kom út fyrir síðustu jól, og fannst eins og við gætum ekki einbeitt okkur að þessu lagi," segir Hannes.

Sálin hans Jóns míns tekur líka lag á plötunni.

„En vildum þó fá að halda í það, sem var ekkert mál. Svo á þessu ári þegar við vorum að spá í nýjum lögum þá var þetta lag mjög ofarlega á lista. Það er hresst og skemmtilegt og við náðum allir að tengja mjög vel við það."

„Svo hefur það blundað lengi hjá okkur að gera lag með miklum hljómborðum og hárri kúabjöllu svo þetta varð útkoman. Dr.Gunni kann að búa til hressandi lög og við settum okkar stíl á það, sem er greinilega að virka því það er búið að vera mjög vinsælt í sumar og fólk tekur vel við sér á böllum þegar það er spilað," segir Hannes.

Baggalútur lætur sig ekki vanta þegar sumarsmellir eru annars vegar.

Klárlega markaður fyrir svona plötur

„Það er klárlega markaður fyrir svona plötur á Íslandi. Þarna er að finna vinsælustu lögin í dag í bæði popp og rokkdeildinni. Þessi lög hafa ekki komið út á geisladiski áður svo að við erum bjartsýnir," segir Jón Þór Eyþórsson hjá útgáfufyrirtækinu Senu sem getur út plötuna.

„ Þetta er mjög blönduð plata svo að hún er fyrir alla. Rennur ljúflega í gegn," segir Jón Þór.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.