Innlent

Bílafloti Kaupþings seldur með allt að 300 milljóna króna afslætti

Bankastjórn Nýja Kaupþings seldi lúxusbílaflota gömlu stjórnenda bankans með allt að 300 milljóna króna afslætti. Bankinn óttaðist að sitja uppi með bílana og vildi koma þeim sem fyrst í verð.

Allt að fimmtíu lúxusbifreiðar voru skráðar á gamla Kaupþing en um var ræða bíla sem stjórnendur bankans höfðu afnot af. Þegar bankinn hrundi í október á síðasta ári tók Nýja Kaupþing við bílunum. Þetta voru ekki venjulegar bílar heldur lúxubílar sem margir hverjir voru metnar á yfir tíu milljónir króna.

Sem dæmi má nefna Merceds Benz ML bifreið sem Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, hafði afnot af.

Stjórn Nýja Kaupþings byrjaði að selja bifreiðarnar í nóvember á síðasta ári. Samkvæmt heimildum fréttastofu var bílaflotinn allur metinn á um 400 milljónir króna. Bankinn seldi hins vegar bílana á um eitt hundrað milljónir króna eða með 300 milljóna króna afslætti samkvæmt sömu heimildum. Bílarnir voru seldir einstaklingum og fyrirtækjum. Bílasalan Úranus keypti t.d. 28 bíla.

Eigandi Úranus vildi ekki gefa upp kaupverðið í samtali við fréttastofu en sagðist vera búinn að selja alla bílana áfram - flesta til útlanda. Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Nýja Kaupþings, sagðist ekki kannast við að svo mikill afsláttur hefði verið gefinn af bifreiðunum þegar fréttastofa hafði samband í dag.

Hann sagði að bílarnir hafi verið seldir með 30 prósenta afslætti að meðaltali. Það hafi verið nauðsynlegt þar sem markaður með dýra bíla sé nánast hruninn. Bankinn hafi því neyðst til að gefa afslátt til að selja bílana.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×