Innlent

Auknar líkur á kosningum næsta vor

Líkurnar á því að boðað verði til Alþingiskosninga næsta vor hafa aukist stórlega eftir yfirlýsingar forsætisráðherra um að halda skuli tvær þjóðaratkvæðagreiðslur um Evrópusambandsaðild. Vinstri grænir vilja að næsta ríkisstjórn verði rauðgræn.

Geir H. Haarde forsætisráðherra lýsti því yfir í fjölmiðlum um áramótin að vel kæmi til greina að fara í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandsmálin. Þetta þýðir að þjóðin þurfi að kjósa þrisvar um Evrópusambandið þar sem einnig þarf að boða til Alþingiskosninga til að hægt sé að ná fram nauðsynlegum stjórnarskrárbreytingum.

Samfylkingarmenn hafa tekið hugmyndum Geirs frekar fálega og vilja þess í stað sameina fyrri þjóðaratkvæðagreiðslu og Alþingiskosningar. Tveir ráðherrar hafa lýst yfir þeirri skoðun að þeir telji eðlilegt að ganga til kosninga næsta vor. Ef sjálfstæðismenn samykkja tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu á næsta Landsfundi má segja að líkurnar á kosningum á þessu ári hafi aukist all verulega.

Vinstri grænir mælast nú með mesta fylgið samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallups. Í viðtali við DV í dag sagðist Steingrímur J. Sigfússon vilja fá rauðgræna ríkisstjórn með Samfylkingunni. Undir þetta tekur varaformaður flokksins.

„Við teljum augljóst að það þurfi að fara fram hér hugmyndalegt uppgjör og það þurfi að hefja til vegs og virðingar félagsleg gildi og græn gildi. Við teljum einnig að Samfylkingin sé okkar drauma samstarfsflokkur ef svo má að orði komast í þeim efnum," segir Katrín Jakobsdóttir varaformaður Vinstri grænna.

„Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að taka sér frí frá vödlum eftir hartnær 20 ára valdatíð."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×