Innlent

Alfreð byggir brýr

Fundur Alfreðs Þorsteinssonar og Davíð Oddssonar í Seðlabankanum fyrir helgi hefur vakið upp spurningar um hvort áhrifamenn í Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki ræði nú saman um endurnýjað ríkisstjórnarsamstarf eftir kosningar. Eru menn ekki alltaf í brúarsmíði, spyr Alfreð þegar hann er spurður um fundinn með Davíð.

Alfreð Þorsteinsson var talinn lykilmaður bak við tjöldin við að fá þá Björn Inga Hrafnsson og Vilhjálm Vilhjálmsson til að mynda fyrsta borgarstjórnarmeirihlutann á kjörtímabilinu og einnig er talið að hann hafi átt hlut að máli þegar Óskar Bergsson ákvað að mynda núverandi meirihluta með sjálfstæðismönnum. Þegar sérlegur áhugamaður um að spyrða þessa tvo flokka í samstarf mætir í Seðlabankann og fundar þar með Davíð Oddssyni vakna því upp spurningar eins og þær hvort áhrifamenn í Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki þreifi nú á möguleika um endurnýjað ríkisstjórnarsamstarf flokkanna eftir kosningar.

Fréttablaðið greindi frá fundi þeirra á föstudag en Alfreð tók þar fram að hann hefði verið að heimsækja dóttur sína í bankann en hún vinnur á sömu hæð og Davíð. Þeir Alfreð og Davíð hafa þekkst frá fornu fari en leiðir þeirra lágu meðal annars saman í borgarstjórn þegar Davíð var borgarstjóri.

Í samtali við Stöð 2 vildi Alfreð ekki segja hversu langur fundur þeirra Davíðs hefði verið né hvað hefði verið rætt. Þegar hann var spurður hvort hann væru að reyna að mynda brú á milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks svaraði Alfreð með spurningu: "Eru menn ekki alltaf í brúarsmíði?"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×